Dagsetning                       Tilvísun
4. feb. 1991                             225/91

 

Virðisaukaskattur vegna smárra rekstraraðila.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 24. janúar sl., þar sem spurt er um túlkun ríkisskattstjóra á nokkrum atriðum virðisaukaskattslaga. Spurt er:

  1. Hvort lágmarksfjárhæð 3. tölul. 4. gr. laga um virðisaukaskatt sé miðuð við sölu með eða án virðisaukaskatts.
  1. Hvernig fari með virðisaukaskatt á sölu sem verður til þess að náð er skattskyldumörkum.
  1. Hvort skila þurfi virðisaukaskatti sem ekki hefur verið innheimtur vegna sölu áður en skattskyldumörkum er náð.

Til svars erindinu vísast til bréfs ríkisskattstjóra til allra skattstjóra frá 6. nóvember 1990, um skráningu nýrra (smárra) rekstraraðila. Þar kemur,m.a. fram að:

  1. Lágmarksfjárhæð miðast við nettóveltu, þ.e. sölu án virðisaukaskatts, á ári. Þetta tímabil er ekki bundið við almanaksárið, heldur ber að miða við hvert samfellt 12 mánaða tímabil.
  1. Þegar sala á einum hlut verður til þess að aðili nær lágmarkinu, ber honum að innheimta skatt af þeirri sölu í heild sinni, ekki aðeins þeim hluta sem er umfram lágmarkið.
  1. Aðila ber að tilkynna um starfsemi sína þegar fyrirsjáanlegt er að sala hans á 12 mánaða tímabili muni ná lágmarksfjárhæðinni. Frá og með þeim tíma skal hann innheimta virðisaukaskatt. Ekki er krafist greiðslu skatts af sölu sem á sér stað fyrir þetta tímamark, en hins vegar má ekki telja til innskatts virðisaukaskatt sem fyrir skráninguna fellur á kaup hans á skattskyldum vörum og þjónustu til nota í rekstrinum.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.