Dagsetning Tilvísun
24. júlí 1992 419/92
Virðisaukaskattur vegna sölu tollskýrslueyðublaða af hálfu tollyfirvalda.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 22. júlí sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra varðandi virðisaukaskatt af sölu tollskýrslueyðublaða.
Ríki, bæjar- og sveitarfélögum og stofnunum eða fyrirtækjum þeirra er skylt að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð, ef þeir aðilar selja vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt. Fyrir liggur að tollskýrslueyðublöð verða ekki lengur eingöngu seld af tollyfirvöldum og verður því ekki annað séð en að slík sala hjá ríkistollstjóra sé í samkeppni við atvinnufyrirtæki og þar af leiðandi virðisaukaskattsskyld.
Tekið skal fram að starfsemi af þessu tagi telst vera virðisaukaskattsskyld ef tilgangur hennar er að skila hagnaði þ.e. ef tekjur af starfseminni eru alltaf eða nær alltaf hærri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar.
Í bréfinu kemur fram að ríkistollstjóraembættið sér um prentun og dreifingu tollskýrslueyðublaða til tollstjóra. Ríkistollstjóraembættið sendir tollstjórum eyðublöð sem þeir greiða fyrir þegar í stað og annast síðan sölu þeirra til viðskiptaaðila. Ef eyðublöðin eru seld viðskiptaaðilum á sama verði og tollstjórum er ekki neinn virðisauki í þeirri sölu þannig að í því tilviki væri ekki um skráningarskylda starfsemi að ræða. Ef aftur á móti tollstjórar selja eyðublöðin á hærra verði en þeir kaupa þau þá er um virðisaukaskattsskylda starfsemi að ræða og ber tollstjórum af þeim sökum að tilkynna starfsemina til skráningar hjá viðkomandi skattstjóra.
Tekið skal fram að þeir sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en 183.000 kr. á ári (miðað við byggingarvísitölu 1. janúar 1992) eru undanþegnir skattskyldu.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Vala Valtýsdóttir.