Dagsetning Tilvísun
11. feb. 1993 448/93
Virðisaukaskattur vegna starfsemi slökkviliðs.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 12. október 1992 um virðisaukaskatt af innheimtu tiltekinna gjalda vegna starfsemi S.
Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, nær skattskylda til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sem ekki er sérstaklega undanþegin. Í 4. tl. 1. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt er sérstaklega tekið fram að ríki, bæjar- og sveitarfélögum og stofnunum eða fyrirtækjum þeirra beri skylda til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð, að því leyti sem þeir aðilar selji vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki.
Það er meginregla samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, að opinber þjónustufyrirtæki skuli greiða virðisaukaskatt af starfsemi sinni. Þau skulu innheimta virðisaukaskatt af heildarveltu sinni og skila honum í ríkissjóð að frádregnum innskatti af aðföngum. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skulu fyrirtæki ríkis og sveitarfélaga, stofnanir þeirra eða þjónustudeildir, sem hafa það að meginmarkmiði að framleiða vörur eða inna af hendi þjónustu til eigin nota, greiða virðisaukaskatt af starfsemi sinni að því leyti sem hún er rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki.
- Gjald S fyrir aðstoð við fólk vegna vatnsleka er skattskyld starfsemi samkvæmt meginreglu 2. mgr. 2. gr. og 4. tl. 1. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt, og ákvæðum reglugerðar nr. 248/1990.
- Gjald S fyrir tengingu á eldviðvörunarkerfum er skattskyld starfsemi samkvæmt meginreglu 2. mgr. 2. gr. og 4. tl. 1. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt og ákvæðum reglugerðar nr. 248/1990.
- Gjald S fyrir fölsk útköll frá eldviðvörunarkerfum er ekki skattskyld starfsemi samkvæmt gagnályktun frá 4. tl. 1. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt. Það er álit ríkisskattstjóra að skilja beri ákvæði þetta þannig að gjaldtaka ríkisstofnana eða -fyrirtækja vegna starfsemi sem þau hafa með höndum í krafti opinbers valds hafi ekki í för með sér skyldu til að innheimta virðisaukaskatt, enda er þá ekki á valdi annars en viðkomandi stofnunar eða fyrirtækis að veita sambærilega þjónustu með sömu réttaráhrifum. Jafnframt felst í ákvæðinu að þjónusta sem opinber stofnun veitir án þess að henni sé það skylt að lögum er ekki skattskyld nema sambærileg þjónusta sé einnig veitt af atvinnufyrirtækjum.
- Gjald S fyrir leigu á tækjum liðsins er skattskyld starfsemi samkvæmt meginreglu 2. mgr. 2. gr. og 4. tl. 1. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt, og ákvæðum reglugerðar nr. 248/1990.
- Gjald S fyrir öryggisvaktir er skattskyld starfsemi samkvæmt meginreglu 2. mgr. 2. gr. og 4. tl. 1. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt og ákvæðum reglugerðar nr. 248/1990, enda er hér um að ræða kostnað af þjónustu sem S lætur viðskiptamönnum sínum í té samkvæmt samningi og í samkeppni við atvinnufyrirtæki.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Vala Valtýsdóttir.