Dagsetning Tilvísun
27. desember 1993 601/93
Virðisaukaskattur vegna umboðs- og umsýslulauna.
Vísað er til bréfs yðar, mótt. hjá ríkisskattstjóra þann 10. júní 1992, sem er fyrirspurn vegna umboðslauna.
Í bréfi yðar segir, að „samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt telst sala eða afhending á vöru sem seld er í umsýslu- eða umboðssölu til skattskyldrar veltu. Hjá bensínstöðum og reyndar fleiri aðilum virðist uppgjör skattskyldrar veltu hins vegar fara fram á fleiri en einn veg…“.
1. Spurt er, hvernig farið sé með tekjuliði, sem nefndir eru umboðslaun, en þeir ekki færðir sem skattskyld velta?
Svar: Samkvæmt 11. gr. laga 50/1988, um virðisaukaskatt, á skráður (virðisaukaskattskyldur) aðili að greiða virðisaukaskatt af sölu vöru og skattskyldrar þjónustu. Skráður aðili skal einnig greiða virðisaukaskatt af sölu vöru, sem hann hefur móttekið í umsýslu- eða umboðssölu, hvort sem um er að ræða sölu fyrir skráða aðila eða óskráða.
Með umsýslu- og umboðssölu er í þessu sambandi átt við það þegar fyrirtæki (umsýslumaður) selur vöru í eigin nafni en fyrir reikning annars manns (umsýsluveitanda). Þegar um slíka sölu er að ræða reiknast virðisaukaskattur af heildarandvirði hins selda, sbr. almennar reglur um skattverð í 7. gr. laga um virðisaukaskatt.
Ef ákveðnum skilyrðum er fullnægt getur fyrirtæki haft milligöngu um viðskipti tveggja einstaklinga, sem ekki eru með rekstur, án þess að virðisaukaskattur reiknist af heildarverði. Þessi tegund af milligöngu er hér nefnd sölumiðlun, en um skilyrði hennar vísast til bréfs gjaldadeildar ríkisskattstjóra nr. 22/90.
2. Spurt er, í hvers nafni reikningar skuli vera við sölu umboðsmanna á vörum umbjóðenda?
Svar: Sá sem innheimtir virðisaukaskatt af sölu á vöru, sem hann hefur móttekið í umsýslu- eða umboðssölu og selur í eigin nafni, skal gefa út reikning fyrir þeirri sölu. Um reikningsgerð við sölumiðlun gildir sérstök regla, sbr. áðurnefnt bréf nr. 22/90.
3-4. Spurt er, hvort hægt sé að líta á umboðsmenn olíufélaga sem verktaka við afgreiðslu bensíns og olíu, þannig að þeir telja einungis umboðslaun sín til skattskyldrar veltu en olíufélög sjá um uppgjör á heildarsölunni? – Hver er í raun munur á verktakagreiðslum og launagreiðslum?
Svar: „Umboðsmenn“ olíufélaga geta verið verktakar, umsýslumenn eða launþegar. Ef störf „umboðsmanna“ olíufélaga eiga að teljast verktakastörf, þá verða þau að flokkast undir verksamninga sem þjónustusamningar. Verksamningar eru þeir samningar nefndir, þar sem annar aðilinn, verktaki, tekur að sér, gegn endurgjaldi, að vinna eða annast um tiltekið verk fyrir gagnaðila, verkkaupa, og verktakinn ábyrgist verkkaupanum árangur verksins. Oftast væri rétt að líta á umsýslu- og umboðsstörf sem verksamninga. En samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga um virðisaukaskatt eiga verksamningar umboðs- og/eða umsýslu-manna að teljast til skattskyldrar veltu.
Þeir verktakar sem teljast hafa sjálfstæða starfsemi með höndum eiga að innheimta virðisaukaskatt af endurgjaldi fyrir þjónustu sína, enda nemi skattskyld sala þeirra meiru en kr. 185.200 á ári (miðað við byggingarvísitölu 1. janúar 1993). Þeim ber að gera reikning fyrir þjónustu sinni, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila.
Það sem skiptir meginmáli við aðgreiningu vinnusamninga og verksamninga er sjálfstæði þess er verkið vinnur gagnvart vinnuveitanda eða verkkaupa og byggist mat þetta einkum á ákvörðun um, hvor samningsaðila hafi yfirstjórn verks með höndum. Fari verkkaupi með endanlega stjórn verksins, myndi yfirleitt vera litið svo á, að um vinnusamning sé að ræða. Þó ber á það að líta, að stundum kann vinnusamningi að vera þannig háttað, að sá, er verkið vinnur, starfar að verulegu leyti sjálfstætt eða óháð vinnuveitanda og á þetta einkum við um störf er krefjast sérþekkingar. En af eðli vinnusamnings leiðir þó, að vinnuveitandi yrði samt sem áður talinn hafa rétt til að beita stjórnunarvaldi sínu, ef hann óskar þess.
Eftirfarandi eru nokkur atriði til leiðbeiningar um aðgreiningu milli verksamninga og vinnusamninga:
- Er viðkomandi í samtökum vinnuveitenda eða í stéttarfélagi launþega?
- Er viðkomandi skuldbundinn til að vinna verkið sjálfur? Ef svo er, þá bendir það til vinnusamnings.
- Hver er ákvörðun endurgjalds fyrir verk? Vinnusamningar miðast venjulega við tímalengd, en verksamningar við árangur verks. Þurfi viðkomandi ekki að hafa neinn kostnað af vinnu sinni er líklegra að um launþega en verktaka sé að ræða. En leggi aðili til vélar og verkfæri til verks, þá bendir það til verksamnings.
- Hafi viðkomandi löggildingu eða sérleyfi til verka getur það bent til verksamnings fremur en vinnusamnings.
Að öðru leyti vísast til meðfylgjandi skjals, þar sem tilgreindar eru nokkrar viðmiðunarreglur vegna aðgreiningar vinnusamninga og verksamninga.
Það gilda engar sérreglur um skil virðisaukaskatts af sölu bensíns og olíuvara (sbr. hins vegar þá reglu söluskattslaga að innflytjendur þessara vara greiddu söluskatt af smásöluverði við sölu eða afhendingu til umboðsmanna sinna). Því skulu þeir umsýslumenn sem selja bensín og olíuvörur í smásölu, innheimta og skila virðisauka-skatti af smásöluverði, en telja til innskatts þann virðisaukaskatt sem fram kemur á reikningum heildsala (olíufélaga).
5. Spurt er, hvort sala umboðsmanns á vörum umbjóðanda, sem færð er sem skattskyld velta hjá umboðsmanni, sé aðstöðuskattsskyld sem „vörukaup“ frá umbjóðanda.
Svar: Samkvæmt ákvæði I til bráðabirgða með lögum nr. 113/1992 skal falla niður innheimta á aðstöðugjaldi sem lagt er á gjaldárið 1993 vegna rekstrar á árinu 1992. Þess skal þó getið að umboðs- og umsýslumenn greiddu ekki aðstöðugjald fyrir sölu á vörum frá umsýsluveitanda. Samkvæmt 13. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekju- og eignarskatt, skal umboðssali, sem tekið hefur vörur til sölu í eigin nafni og tekið á móti greiðslu fyrir vöruna, telja fram á umboðssölureikningi heildarandvirði slíkrar vöru, sem hann hefur selt, þar með talið ógreitt andvirði vörunnar, og sundurliða heildarandvirðið með sama hætti og annarrar seldrar vöru.
6. Spurt er, hvort laun frá erlendum aðilum fyrir áfengisumboð sé undanþegin virðisaukaskatti.
Svar: Laun frá erlendum aðilum vegna áfengisumboða telst til tollverðs skv. 1. tl. a-liðar 1. mgr. 9. gr. tollalaga nr. 55/1987, og því er ekki sérstaklega innheimtur virðisaukaskattur af þessum umboðslaunum.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Bjarnfreður Ólafsson