Dagsetning Tilvísun
20. des. 1990 185/90
Virðisaukaskattur vegna umboðssölu á æðardúni.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 2. október sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á meðferð virðisaukaskatts vegna umboðssölu á æðardúni.
Sala vöru, sem seljandi hefur tekið í umsýslu- eða umboðssölu, telst til skattskyldrar veltu hans samkvæmt almennum reglum, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga um virðisaukaskatt. Jafnframt telst afhending vöru til umsýslu- eða umboðsmanns til skattskyldrar veltu umsýslu- eða umboðsveitanda. Þó er afhending fiskafurða til aðila, sem tekur þær í umsýslu- eða umboðssölu úr landi, undanþegin skattskyldri veltu að uppfylltum vissum skilyrðum, sbr. reglugerð nr. 563/1989.
Samkvæmt framansögðu ber yður að innheimta virðisaukaskatt af dúni sem þér látið til umsýslu- eða umboðssölu. Samkvæmt 3. mgr. 13. gr. laga um virðisaukaskatt má annaðhvort telja vöru til skattskyldrar veltu á því uppgjörstímabili þegar afhending fer fram eða til veltu þess tímabils þegar gert er upp við umsýslu- eða umboðsmann. Sé síðarnefnda aðferðin valin, má ekki gefa út reikning skv. 20. gr. laganna fyrr en uppgjörið fer fram.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.