Dagsetning                       Tilvísun
22. feb. 1993                            454/93

 

Virðisaukaskattur vegna ýmissa aðila við kvikmyndagerð

Vísað er til bréfs yðar dags. 21. ágúst 1992 þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort undanþága skv. 12. tl. 3. mgr. 2. gr. laga 50/1988 taki til stjórnenda kvikmyndatöku, klippara, hljóðhönnuða, höfunda búninga og gerva, hreyfimyndagerðarmanna og dagskrárgerðamanna.

Starfsemi rithöfunda og tónskálda við samningu hugverka og sambærileg liststarfsemi er undanþegin virðisaukaskatti skv. 12. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Þetta undanþáguákvæði tekur m.a. til höfundar kvikmyndahandrits og leikstjóra, svo og höfunda leikmyndar; þó er samning handrits að auglýsingamynd, leikstjórn hennar o.s.frv. skattskyld til virðisaukaskatts ( auglýsingaþjónusta ). Störf flytjenda ( leikara, dansara, tónlistarmanna o.s.frv.) sem fram koma í kvikmynd, þ.á.m. auglýsingamynd, eru einnig undanþegin á grundvelli ákvæðisins.

Áðurnefnt ákvæði 12. tl. tekur hins vegar ekki til þóknunar fyrir t.d. dagskrárgerð eða sýningarrétt að kvikmynd. Störf kvikmyndatökumanns, ljósameistara, hljóðmeistara, klippara, svo og höfunda búninga, gerfa og brellna ( „special effects“ ) eru einnig skattskyld til virðisaukaskatts ef um er að ræða greiðslur til verktaka.

Þannig verður ekki fallist á að þeir aðilar er þér nefnið í bréfi yðar falli undir undanþáguákvæði 12. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988.

 

Virðingarfyllst

f.h. ríkisskattstjóra.

Vala Valtýsdóttir.