Dagsetning                       Tilvísun
2. nóvember 1993                            565/93

 

Virðisaukaskattur veiðafæragerða

Vísað er til bréfs yðar, dags. 12. október 1993, þar sem leitað er álits ríkisskattstjóra á virðisaukaskattsskyldu vegna vinnu við smíði veiðarfæra, uppsetningar þeirra og viðhalds þeirra fyrir útgerðir.

Til svars erindinu skal tekið fram að virðisaukaskattsskyldir eru allir þeir sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni selja eða afhenda vörur eða verðmæti ellegar inna af hendi skattskylda vinnu eða þjónustu. Þeir sem selja skattskylda vinnu eða þjónustu fyrir minna en 185.200 kr. á ári (miðað við byggingarvísitölu 1. janúar 1993) eru þó undanþegnir skattskyldu.

Til skattskyldrar veltu telst þó ekki skipasmíði og viðgerðar- og viðhaldsvinna við skip og loftför og fastan útbúnað þeirra, svo og efni og vörur sem það fyrirtæki, sem annast viðgerðina, notar og lætur af hendi við þá vinnu sbr. 7. tl. 12. gr. virðisaukaskattslaganna. Undanþága þessi nær þó ekki til skemmtibáta og einkaloftfara.

Með föstum útbúnaði skips er eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpi til virðisaukaskattslaga aðallega átt við útbúnað sem fastur er við skip eða loftfar, t.d. fjarskiptabúnaður, ratsjá og önnur siglingatæki, en nær einnig til björgunarbáta og annars öryggisútbúnaðar. Veiðarfæri, fiskkassar og annað lausafé telst ekki til fasts útbúnaðar í þessu sambandi.

Undanþáguákvæðið á ekki við í þeim tilvikum þegar fyrirtæki selur tæki, búnað, efni eða varahluti í skip án þess að annast sjálft viðgerð eða uppsetningu.

Samkvæmt framansögðu þá er það einungis fastur útbúnaður um borð sem er án virðisaukaskatts en veiðarfæri teljast ekki til fasts útbúnaðar í þessu sambandi. Þannig ber yður að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu yðar við skip sem felst í smíði og viðhaldi á veiðarfærum skipa.

 

Virðingarfyllst

f.h. ríkisskattstjóra

Grétar Jónasson