Dagsetning Tilvísun
11. febrúar 1997 785/97
Virðisaukaskattur – Vélsleðaleiga – Hlutfall skattskyldrar starfsemi af veltu (ebl. 10.27)
Vísað er til bréfs yðar, dags. 13. nóvember sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort innheimta eigi virðisaukaskatt af útleigu á vélsleðum. Jafnframt er spurt að því hvort velta vegna reiknaðar eigin vinnu á verkstæði teljist með í sölu vegna skattskyldrar starfsemi þegar hlutfall skattskyldrar starfsemi í heildarveltu er fundið til afstemmingar innskatts vegna blandaðrar starfsemi.
Til svars fyrri hluta fyrirspurnar yðar skal tekið fram að útleiga vélsleða án leiðsögumanns er virðisaukaskattsskyld starfsemi. Hins vegar skal áréttað að ef vélsleðar eru leigðir út ásamt leiðsögumanni í skipulagðri hópferð þá telst slík útleiga vera sala á fólksflutningum, sbr. 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
Síðari hluti fyrirspurnar yðar varðar það hvort reikna eigi skattskyld eigin not inn í hlutfall skattskyldrar starfsemi við útreikning á innskattsfrádrætti vegna blandaðrar starfsemi. Ljóst er að ef aðili sem hefði með höndum blandaða starfsemi keypti að umrædda þjónustu þá væri honum heimilt að telja virðisaukaskatt til innskatts í því hlutfalli sem sala á skattskyldri vöru og þjónustu hvers reikningsárs er af heildarveltu ársins, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt.
Það að aðili þjónustar sig sjálfur í stað þess að kaupa þjónustuna að á ekki að skipta máli í skattalegu tilliti enda segir í áðurnefndu ákvæði að umrædd skipting innskatts sé miðuð við hlutfall seldrar skattskyldrar vöru og þjónustu af heildarveltu ársins. Hér er því einungis miðað við selda þjónustu en ekki útreiknað skattverð eigin þjónustu enda myndi slíkt raska verulega samkeppni annarra gagnvart þeim sem ákveða að þjónusta sig sjálfir. Hinn reiknaði útskattur af eigin þjónustu er því settur til jafns við virðisaukaskatt af aðkeyptri þjónustu og er því heimilt að telja hann til innskatts eins og um aðkeypta þjónustu væri að ræða.
Af framansögðu leiðir að ef eigin þjónusta er bæði vegna skattskylds þáttar og skattfrjáls þáttar í starfsemi aðila þá er honum heimilt að telja hinn reiknaða virðisaukaskatt af eigin þjónustu til innskatts í sama hlutfalli og honum er heimilt með virðisaukaskatt af öðrum aðföngum.
Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á afgreiðslu fyrirspurnar yðar.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir