Dagsetning                       Tilvísun
14. apríl 1990                              54/90

 

Virðisaukaskattur – verslun í öldrunarheimili.

Ríkisskattstjóri hefur 28. desember 1989 móttekið bréf yðar þar sem spurt er hvort rekstur verslunar á vegum hjúkrunarheimilis sé virðisaukaskattsskyldur. Í bréfinu segir m.a..

„Í verslun þessari er selt sælgæti og ýmiss smávarningur. Er þessi rekstur fyrst og fremst hugsaður sem þjónusta fyrir heimilisfólk. Verslunin hefur verið smá í sniðum og einungis opin nokkra klukkutíma á degi hverjum og ekki um helgar. – Allar vörur til verslunarinnar eru keyptar inn með söluskatti frá heildsölum og álagning fyrst og fremst miðuð við að endar nái saman. – Þar sem vitað er að nokkrar verslanir eru reknar með svipuðu sniði í sjúkrahúsum og öldrunarheimilum og ekki lagður á frekari söluskattur en kemur frá heildsölum þá er spurt hvort embættið gerir nokkra athugasemd við að hafa þennan hátt á þessari starfsemi.“

Að áliti ríkisskattstjóra verður að tel,ja umrædda verslunarstarfsemi virðisaukaskattsskylda samkvæmt almennum ákvæðum laga um virðisaukaskatt. Tekið skal fram að rekstur verslunar af því tagi sem lýst er í bréfi yðar getur ekki talist falla undir undanþáguákvæði 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.