Dagsetning                       Tilvísun
15. nóvember 1995                            703/95

 

Virðisaukaskattur v/gjafa – frádráttarbær rekstrarkostnaður (kynningarkostnaður).

Vísað er til bréfs yðar, dags. 10. nóvember sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort telja skuli til skattskyldrar veltu afhendingu á geisladiskum án endurgjalds.

Í bréfi yðar segir m.a.

“Ég fæ sífellt margs konar spurningar sem tengjast fyrirlestrum mínum og ákvað því að semja bók og svara þeim í henni. Það er barnasaga með leikjum og æfingum, leiðbeiningum um hollt mataræði og fleira. Æ gefur hana út. Síðar fékk ég þá hugmynd að framleiða sjálfur geisladisk og lýsa leikfimiæfingum. Ég vil gefa hana með bókinni. Ég er sannfærður um að það hvetur krakkana enn frekar til að stunda æfingar. Til þess að gera lýsinguna líflegri fékk ég vin minn til að leika tónlist með henni. Ég þarf því að greiða stefgjald auk framleiðslukostnaðar. Upphæðin er alls 150 krónur. Gefnir verða út 6000 diskar. Ég sæki því um að fá að greiða virðisaukaskatt af 150 krónum fyrir hvern geisladisk og færa fjölda gefinna eintaka á virðisaukaskattsskýrslu mína – enda er þetta mín eigin velta.”

Í samtali við yður kom einnig fram sú spurning hvort þú mættir telja umræddan kostnað til rekstrarkostnaðar skv. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Til svars erindinu skal tekið fram að umræddur kostnaður tengist ekki virðisaukaskattsskyldri starfsemi yðar heldur tengist hann undanþeginni starfsemi skv. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga nr. 50/1988, þ.e. fyrirlestrum, sýningum og ritstörfum. Af þessum sökum og þar sem þér eruð ekki útgefandi eða seljandi umræddrar bókar verður ekki talið að afhending yðar á geisladiskum til kaupenda bókanna sé með þeim hætti að innheimta beri virðisaukaskatt af þeirri afhendingu.

Hvað varðar hinn þátt fyrirspurnar yðar, þ.e. hvort telja megi kostnað vegna framleiðslu geisladisksins sem rekstrarkostnað og með því draga hann frá tekjum sem stafa af sjálfstæðri starfsemi yðar þá verður að telja að heimilt sé draga slíkan kostnað frá rekstrartekjum enda verður talið að um sé að ræða eðlilegan kynningarkostnað vegna starfsemi yðar.

Að lokum skal tekið fram að vegna þessa verður að afhenda umræddan geisladisk sér en ekki þannig að telja megi geisladiskinn sem órjúfanlegan þátt í sölu bókarinnar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir.

Friðgeir Sigurðsson.