Dagsetning Tilvísun
12. júlí 1993 494/93
Virðisaukaskattur – virðisaukabifreiðar
Vísað er til bréfs yðar, dags. 11. janúar 1993, þar sem óskað skýringa ríkisskattstjóra á þeim reglum sem gilda um innskattshæfni kostnað ar við rekstur og öflun sendibifreiða.
Spurt er í bréfi yðar hvort akstur milli heimilis og vinnustaðar teljist til einkanota þegar starfsmaður er á bakvakt og hvort vegalengd milli heimils og reglubundins vinnustaðar skipti máli í þessu sambandi.
Til svars bréfs yðar skal tekið fram að skv. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, er einungis heimilt að nota virðisaukabifreiðar í þeirri starfsemi eiganda sem er virðisaukaskattsskyld. Af þessu leiðir að hvers konar einkanot bifreiðar telst vera misnotkun hennar og leiðir slík misnotkun bifreiðar á rauðhvítum skráningarmerkjum að öllu jöfnu til þess að innskattur af öflun bifreiðar verður bakfærður.
Til einkanota, sbr. 9. gr. reglugerðar 192/l993, telst m.a. akstur milli heimils og vinnustaðar. Reglan er skýr og afdráttarlaus, þannig að akstur milli heimils og vinnustaðar verður ávallt talinn til einkanota óháð því hver vegalengd milli heimilis og vinnustaðar er.
Nánari reglur um meðferð virðisaukabifreiða koma fram í hjálögðum leiðbeiningum ríkisskattstjóra um meðferð virðisaukaskatts af bifreiðum.
Beðist er velvirðingar á þeim drætti sem orðið hefur að svara fyrirspurn yðar.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Jón Þrándur Stefánsson.
Hjálagt: Leiðbeiningar um meðferð virðisaukaskatts af bifreiðum.