Dagsetning                       Tilvísun
12. júlí 1993                            495/93

 

Virðisaukaskattur – virðisaukabifreiðar

Vísað er til bréfs yðar, dags. 17. febrúar 1993, þar sem óskað skýringa ríkisskattstjóra á þeim reglum sem gilda um meðferð innskattshæfra bifreiða.

Í bréfi yðar kemur fram sú túlkun að með gildistöku reglugerðar nr. 481/1992, um breyting á reglugerð um innskatt, falli úr gildi ákvæði reglugerðar nr. 81/l99l, um innskatt, sem hafi heimilað að innskattshæfar bifreiðar væru geymdar við heimahús, næturlangt og um helgar, ef slík notkun væri færð til frádráttar við uppgjör virðisaukaskatts.

Til svars bréfs yðar skal tekið fram að með gildistöku reglugerðar nr. 481/1992 var ekki um neina breytingu að ræða frá þeim reglum sem áður giltu varðandi einkanot innskattshæfra bifreiða. Nánar segir í reglugerð nr. 81/l991, innskatt:

„Óheimilt er að telja til innskatts virðisaukaskatt vegna öflunar eða leigu eftiralinna ökutækja nema þau séu eingöngu notuð vegna sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. . . “

Með gildistöku reglugerðar nr. 481/1992 kemur fram nánari árétting á þeim reglum sem í gildi eru varðandi einkanot en ekki er um efnislega breytingu á reglum um notkun innskattshæfra bifreiða að ræða. Samkvæmt því er eftir sem áður einungis heimilt að nota virðisaukabifreiðar í þeirri starfsemi eiganda sem er virðisaukaskattsskyld. Af þessu leiðir að hvers konar einkanot bifreiðar telst vera misnotkun hennar og leiðir slík misnotkun bifreiðar að öllu jöfnu til þess að innskattur af öflun bifreiðar verður bakfærður. Hafi innskattshæf bifreið verið notuð á þann hátt sem fram kemur í túlkun yðar þá ber að bakfæra innskatt af öflun bifreiðarinnar og leiðrétta innskatt af rekstri í samræmi við notkun á þeim tíma.

Ákvæði 9. gr. núgildandi reglugerðar nr. 192/l993, um innskatt, eru samhljóða 9. gr. reglugerðar nr. 81/1991 með breyting skv. reglugerð 481/1992. Til einkanota, sbr. 9. gr. reglugerðar 192/1993, telst m.a. akstur milli heimils og vinnustaðar. Reglan er skýr og afáráttarlaus, þannig að akstur milli heimilis og vinnustaðar verður ávallt talinn til einkanota jafnvel þótt bifreið sé einungis geymd við heimahús eiganda eða starfsmanns. Þrátt fyrir framangreint er heimilt að geyma bifreið við heimahús viðkomandi eigenda ef hann hefur ekki fasta starfstöð annars staðar.

Í bréfi yðar er einnig spurt hvort heimilt sé að leigja geymslupláss fyrir innskattshæfa bifreið þar sem bifreiðin væri geymd innandyra.

Ekkert er því til fyrirstöðu að fyrirtæki leigi geymslupláss fyrir bifreið sína, þar sem bíllinn stendur innandyra, enda sé ekki um dulin einkanot að ræða.

Nánari reglur um meðferð virðisaukabifreiða koma fram í hjálögðum leiðbeiningum ríkisskattstjóra um meðferð virðisaukaskatts af bifreiðum.

Beðist er velvirðingar á þeim drætti sem orðið hefur að svara fyrirspurn yðar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Jón Þrándur Stefánsson.

 

Hjálagt:           Leiðbeiningar um meðferð virðisaukaskatts af bifreiðum.