Dagsetning                       Tilvísun
19. júlí 1993                            499/93

 

Virðisaukaskattur – virðisaukabifreiðar

Vísað er til bréfs yðar, dags. 28. júní 1993, þar sem þér óskið álits ríkisskattstjóra á því hvort samningur sem fyrirtæki yðar gerir við starfsmenn um umsjón og not innskattshæfra bifreiða fyrirtækisins samrýmist þeim reglum sem settar hafa verið varðandi með ferð slíkra bifreiða.

Bent er á í bréfi yðar að fyrirtækið hafi í hyggju að gera samning við starfmenn m.a. út frá öryggissjónarmiði þar sem nær útilokað sé að geyma bifeiðarnar við starfsstöð fyrirtækisins vegna tíðra skemmdarverka. Einnig er bent á í bréfi yðar að með því að fela starfsmönnum umsjón með bifreiðunum utan vinnutíma náist fram hagræðing í starfsemi fyrirtækisins þar sem virkur vinnutími starfsmanna verði lengri. Nánar segir svo, um notkun bifreiðarinnar utan vinnutíma, í samningi við starfsmann meðfylgjandi bréfi yðar:

„Hefjist vinnudagur eða ljúki honum hjá viðskiptavini er heimilt að fara á bifreiðinni heim.

Hefjist vinnudagur á söluferð út á land og að aflokinni söluferð út á land er heimilt að fara á bifreiðinni heim.

(Starfsmanni) er ljóst að (fastnúmer) er VSK-bifreið og eru því einkaafnot óheimil..”

Til svars bréfs yðar skal tekið fram að skv. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1i993, um innskatt, er einungis heimilt að nota virðisaukabifreiðar í þeirri starfsemi eiganda sem er virðisaukaskattsskyld. Af þessu leiðir að hvers konar einkanot bifreiðar telst vera misnotkun hennar og leiðir slík misnotkun bifreiðar á rauðhvítum skráningarmerkjum að öllu jöfnu til þess að innskattur af öflun bifreiðar verður bakfærður.

Til einkanota, sbr. 9. gr. reglugerðar 192/1993, telst m.a. akstur milli heimils og vinnustaðar. Reglan er skýr og afdráttarlaus, þannig að akstur milli heimils og vinnustaðar verður ávallt talinn til einkanota jafnvel þótt bifreið sé einungis geymd við heimahús eiganda eða starfsmanns.

Notkun bifreiðar á þann hátt sem fram kemur í samningi meðfylgjandi bréfi yðar samrýmist því ekki þeim reglum sem gilda um virðisaukabifreiðar.

Nánari reglur um meðferð virðisaukabifreiða koma fram í hjálögðum leiðbeiningum ríkisskattstjóra um meðferð virðisaukaskatts af bifreiðum.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Jón Þrándur Stefánsson.

 

Hjálagt:           Leiðbeiningar um meðferð virðisaukaskatts af bifreiðum.