Dagsetning Tilvísun
19. júlí 1993 500/93
Virðisaukaskattur – virðisaukabifreiðar
Vísað er til bréfs yðar, dags. 2. júlí 1993, þar sem þér farið fram á undanþágu vegna heimaksturs starfsmanns fyrirtækisins.
Í bréfi yðar kemur fram að ástæða beiðni þessarar er margþætt. Fram kemur að fyrirtækið hafi ekki aðstöðu til þess að geyma bifreiðina fyrir utan starfsstóð og að mikil hætta sé á skemmdum á bifreiðinni sé bifreiðin geymd á opnu svæði í miðbæ Reykjavíkur. Segir í bréfi yðar að fyrirtækið vinni að flutningsmiðlun og skorið yrði á lífæð fyrirtækisins ef bifreiðin yrði fyrir skemmdum þar sem bifreiðin er aðallega notuð til þess að fara með hraðsendingar. Einnig kemur fram að það hafi í för með sér óhagræði og kostnaðarauka sé bifreiðin geymd fyrir utan starfsstað þar sem fyrir kemur bifreiðin er í notkun allan sólarhringinn og ekki er stætt á því að bifreiðarstjórinn keyri frá Hafnarfirði til Reykjavíkur til þess að ná í bílinn til að sinna sínu starfi.
Til svars bréfs yðar skal tekið fram að skv. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, er einungis heimilt að nota virðisaukabifreiðar í þeirri starfsemi eiganda sem er virðisaukaskattsskyld. Af þessu leiðir að hvers konar einkanot bifreiðar telst vera misnotkun hennar og leiðir slík misnotkun bifreiðar á rauðhvítum skráningarmerkjum að öllu jöfnu til þess að innskattur af öflun bifreiðar verður bakfærður.
Til einkanota, sbr. 9. gr. reglugerðar 192/1993, telst m.a. akstur milli heimils og vinnustaðar. Reglan er skýr og afdráttarlaus, þannig að akstur milli heimils og vinnustaðar verður ávallt talinn til einkanota jafnvel þótt bifreið sé einungis geymd við heimahús eiganda eða starfsmanns.
Enda þótt notendur bifreiða á rauðhvítum skráningarmerkjum geti sýnt fram á að þeir hafi verið á bakvakt þegar bifreið stóð við heimahús er slík ástæða ekki fullnægjandi og myndi valda því að allur innskattur af öflun bifreiðar yrði bakfærður.
Ríkisskattstjóri hefur enga lagaheimild til að veita yður undanþágu frá framangreindum reglum.
Nánari reglur um meðferð virðisaukabifreiða koma fram í hjálögðum leiðbeiningum ríkisskattstjóra um meðferð virðisaukaskatts af bifreiðum.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Jón Þrándur Stefánsson.
Hjálagt: Leiðbeiningar um meðferð virðisaukaskatts af bifreiðum.