Dagsetning                       Tilvísun
28.02.2005                              03/05

 

Virðisaukaskattur – vöruflutningar – door to door – sönnun þess að um undanþegna veltu sé að ræða.

Ríkisskattstjóri hefur móttekið fyrirspurn yðar sem barst með tölvupósti þann 28. desember 2004. Í fyrirspurninni er óskað eftir heimild og/eða túlkun ríkisskattstjóra vegna virðisaukaskatts á reikningum fyrir áframflutningum innanlands vegna flutnings á vöru á milli landa. Fram kemur að samkvæmt ákvarðandi bréfi ríkisskattstjóri nr. 926/1999 sé það skilyrði fyrir því að ofangreind aukaþjónusta sé undanþegin virðisaukaskatti að aukaþjónustan sé færð á sama sölureikning og hin eiginlega flutningsþjónusta. Einnig segir að það sé ákveðnum tæknilegum erfiðleikum bundið að gefa út einn sölureikning þar sem tilgreind er öll þjónusta sem veitt er vegna flutnings vörunnar milli landa, þó svo að um sé að ræða heildarsamning við viðkomandi viðskiptamann um flutning á vöru á tiltekinn stað innanlands frá tilteknum stað erlendis og því væri mikið hagræði fólgið í því ef neðangreind heimild/túlkun fengist:

„Óskað er eftir að Eimskipafélagi Íslands ehf. verði heimilt, í þeim tilfellum sem gerður er sérstakur reikningur fyrir áframflutningi innanlands og annarri aukaþjónustu, að gefa út reikninga án virðisaukaskatts fyrir viðkomandi þjónustu. Í viðkomandi reikningum verði vísað til reiknings sem gefinn var út vegna flutninga milli landa, þeas. númers reiknings og dags. Einnig komi fram á reikningnum að um sé að ræða flutning/þjónustu í tengslum við flutning á milli landa“.

Til svars við beiðni yðar skal eftirfarandi tekið fram:

Hvers konar vöruflutningar falla undir skattskyldusvið laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (vsk-laga) en vöruflutningar milli landa eru undanþegnir skattskyldri veltu (bera „núll-skatt“). Sama gildir um vöruflutninga innan lands þegar flutt er beint til eða frá landinu. Ákvæði um undanþáguna er í 2. tölul. l. mgr. 12. gr. vsk-laga. Með vöruflutningum milli landa er átt við flutning á vöru frá tilteknum stað hér á landi til áfangastaðar erlendis og öfugt.

Samkvæmt ákvæðinu er aðeins heimilt að halda endurgjaldi fyrir innanlandsflutning utan skattskyldrar veltu þegar flutt er beint til eða frá landinu. Þannig getur skráður aðili sem tekið hefur að sér að flytja vöru til eða frá landinu haldið öllu flutningsgjaldinu utan skattskyldrar veltu þótt hluti þess sé vegna vöruflutnings sem fram fer hérlendis, t.d. framhaldsflutnings á innlenda höfn eða aksturs til viðtakanda vöru. Endurgjald fyrir vöruflutninga innan lands telst að öðru leyti til skattskyldrar veltu skráðs aðila.

Í skattframkvæmd hefur undanþáguákvæði 2. tölul. 1. mgr. l2. gr. vsk-laga. verið talið taka til;

(a) endurgjalds fyrir hina eiginlegu flutningsþjónustu og

(b) þóknunar fyrir skattskylda þjónustu sem flutningsaðili innir af hendi hér á landi vegna millilandaflutnings samkvæmt venju í atvinnugreininni. Skilyrði er að flutningssamningur kveði á um þessa aukaþjónustu og hún sé færð á sama sölureikning og hin eiginlega flutningsþjónusta.

Til sönnunar á því að undanþágan eigi við innanlandsflutning hefur verið litið svo á að áfangastaður innanlands sé sá staður sem tilgreindur er í farmsamningi. Flutningsaðili skal ávallt geta lagt fram áreiðanleg skjöl til sönnunar því að undanþágan taki til þjónustu hans. Þau skjöl geta verið afrit af farmbréfi eða farmreikningi þar sem áfangastaður kemur fram.

Af hálfu ríkisskattstjóra hefur samkvæmt framansögðu verið talið að aukaþjónustu s.s. fermingu og affermingu, pökkun í flutningsumbúðir, merkingu og vigtun og umsýslu vegna tollafgreiðslu verði ekki haldið utan skattskyldrar veltu nema að flutningssamningur kveði á um þessa aukaþjónustu og hún sé færð á sama sölureikning og hin eiginlega flutningsþjónusta. Þó er rétt að geta þess að ekki er útilokað að þeir aðilar sem selja vöruflutninga geti sýnt fram á það með öðrum jafngildum hætti, en þeim er að ofan greinir, að sala þeirra falli undir umrætt ákvæði. Sönnunarbyrðin um það hvort þjónusta verði felld undir undanþáguákvæðið hvílir á skattaðila og honum ber því að sýna fram á að greint undanþáguákvæði eigi við í hverju tilviki fyrir sig. Um þau sjónarmið er búa að baki slíkri sönnun er fjallað í úrskurði yfirskattanefndar nr. 233/2002 en hann er að finna á upplýsingavef yfirskattanefndar www.yskn.is.

Með hliðsjón af framangreindu telur ríkisskattstjóri sér ekki heimilt að samþykkja í eitt skipti fyrir öll að útgáfa tveggja reikninga, annars vegna vöruflutninga milli landa og hins vegna vöruflutninga innan lands eða annarrar aukaþjónustu, geti talist fullnægjandi sönnun fyrir því að vöruflutningaþjónusta verði felld undir 2. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Rétt er að ítreka að þeir sem selja flutningsþjónustu innan lands – þ.m.t. aukaþjónustu (veitta hérlendis) án þess að hún sé í beinum tengslum við millilandaflutning þeirra sjálfra skulu innheimta virðisaukaskatt af sölu sinni, hvort sem selt er til innlends eða erlends aðila. Þannig skulu undirverktakar við flutning innan lands innheimta virðisaukaskatt af aðalfarmflytjanda.

 

Virðingarfyllst

f. h. ríkisskattstjóra

Elína M. Ingólfsdóttir

Guðrún Þorleifsdóttir