Dagsetning Tilvísun
7. júlí 1997 809/97
Virðisaukaskattur – yfirtaka hlutar sem seldur var með eignarréttarfyrirvara
Vísað er til bréfa yðar, dags. 21. júní, 3. september og 16. október 1996 til skattstjórans í Reykjavík, sem framsend voru ríkisskattstjóra og móttekin 2. apríl sl. Óskað er eftir áliti skattyfirvalda á því hvernig fara beri með uppgjör við yfirtöku hlutar sem var seldur með eignarréttarfyrirvara með tilliti til virðisaukaskatts.
Málavextir eru þeir að umbjóðandi yðar keypti hljómflutningstæki af verslun og var selt með eignarréttarfyrirvara í söluhlut. Síðar gerist það að fjármögnunarfyrirtæki tekur yfir samninginn. Samkvæmt samningi milli kaupanda og seljanda er seljanda heimilt að taka söluhlut til sín vegna vanefnda kaupanda enda sé hluturinn metinn til verðs. Yfirtökuhluturinn var metinn á kr. 85.000 en einungis 68.272 kr. gengu upp í kröfu. Í svarbréfi fjármögnunarfyrirtækisins er mismunurinn skýrður þannig
“að um sölu á tæki sé að ræða og þarf þar af leiðandi að halda eftir virðisaukaskatti af andvirðinu. Heildarsöluverð tækjanna var 85.000 kr. og þar af virðisaukaskattur kr. 16.728.”
Til svars bréfinu skal fyrst tekið fram að ef fjármögnunarfyrirtækið lítur svo á að um sölu sé að ræða, þ.e. kaup þeirra af hinum upprunalega kaupanda þá væri enginn virðisaukaskattur í þeirri fjárhæð þar sem upprunalegi kaupandinn er ekki virðisauka-skattsskyldur aðili.
Ljóst er af málavöxtum að fjármögnunarfyrirtækið seldi ekki umrædda vöru heldur yfirtók það samninginn. Við það varð sú breyting að afborgunargreiðslur kaupanda renna til þess í stað þess að renna til upphaflegs seljanda.
Að áliti ríkisskattstjóra er fjármögnunarfyrirtæki, sem hefur yfirtekið samning með eignarréttarfyrirvara, ekki heimilt að gefa út kreditreikning með virðisaukaskatti enda ekki um að ræða skil á vöru til seljanda, sbr. 3. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Jafnframt skal tekið fram að fyrirtækinu er óheimilt að gefa út afreikning með virðisaukaskatti þar sem ekki er um að ræða almenn vörukaup skv. 3. mgr. 21. gr. laga nr. 50/1988. Meginatriði er að fyrirtækið seldi ekki hlutinn og getur því ekki bakfært virðisaukaskatt sinn vegna sölu annars aðila.
Tekið skal fram að ef yfirtaka á hlut vegna eignarréttarfyrirvara væri gerð af hálfu seljanda bæri honum að gefa út kreditnótu vegna slíkrar yfirtöku og skiptir ekki máli hvort kaupandi er virðisaukaskattsskyldur aðili eða ekki, sbr. 3. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988. Að áliti ríkisskattstjóra ber að fara með uppgjör á vörum sem skilað er til seljanda í slíkum viðskiptum á sama hátt og með endursendar vörur, sbr. 1. tölul. 5. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988.
Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á að svara fyrirspurn yðar.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir.