Dagsetning                       Tilvísun
21. mars 1991                             263/91

 

Virðisaukasksattur – sérlyfjaskrá.

Með bréfi yðar, dags. 8. febrúar 1990, er þess farið á leit við ríkisskattstjóra að hann láti uppi álit sitt á því hvort Sérlyfjaskrá, sem ráðuneytið gefur út, falli undir ákvæði laga um virðisaukaskatt eða ekki. Í bréfinu kemur fram að skrá þessi er gefin út árlega og hefur hún verið seld á nánast kostnaðarverði.

Ríki, bæjar- og sveitarfélögum og stofnunum eða fyrirtækjum þeirra er skylt að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð, að svo miklu leyti sem þeir aðilar selja vörur eðs skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt.

Útgáfustarfsemi og önnur vörusala opinberra stofnana er skráningarskyld (skattskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt) að því leyti sem hún er í samkeppni við atvinnufyrirtæki.

Við mat á því hvenær starfsemi af þessu tagi telst vera sambærileg við starfsemi atvinnufyrirtækja – og þar af leiðandi skráningarskyld – er aðallega miðað við hvort tilgangur starfseminnar sé að skila hagnaði af rekstri. Skráningarskylda er ekki talin vera fyrir hendi ef tekjur af starfsemi eru alltaf eða nær alltaf lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar.

Eins og fram hefur komið af hálfu ríkisskattstjóra í viðræðum við yður verður ekki séð að útgáfa ráðuneytisins á Sérlyfjaskrá sé skráningarskyld, enda ekki um hagnað að ræða af útgáfunni.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.