Dagsetning                       Tilvísun
08.10.2004                              14/04

 

Vsk-bifreið – beiðni um undanþágu frá reglugerðarákvæðum.

Ríkisskattstjóri hefur móttekið erindi félagsins, dags. 16. júní 2003, sem framsent var frá skattstjóranum í Vesturlandsumdæmi þann 18. júní s.l. Í erindinu kemur fram að félagið, sem annast öryggisgæslu í heimabæ sínum, hafi nýverið keypt til starfseminnar vsk-bifreiðina TH-132, sem búin er vsk-númerum. Fram kemur að þegar notkun bifreiðarinnar hófst hafi komið í ljós að þilið aftan við ökumannssætið leyfi ekki að sætinu sé rennt aftur, eins og vaktmaður gerði gjarnan þegar bíllinn var í kyrrstöðu og gat þannig hvílt bak og fætur. Sé þetta afar óþægilegt. Er því óskað eftir undanþágu frá reglugerðarákvæðum um búnað vsk-bifreiða þ.e. leyfi til að taka þilið úr bifreiðinni og setja sætið í að nýju. Beðið er um leyfið fyrir þessa einu bifreið, TH 132.

Til svars við erindi félagsins skal eftirfarandi tekið fram.

Í 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, sbr. 1. gr. sömu reglugerðar og 6. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er að finna þær reglur sem gilda um virðisaukaskattsökutæki. Til virðisaukaskattsökutækja teljast m.a. sendi- og vörubifreiðir með leyfða heildarþyngd 5.000 kg eða minna og uppfylla eftirtalin skilyrði:
a. Skráð flutningsgeta í fólksrými skal vera minni en helmingur af skráðri burðargetu bifreiðar. Miða skal við að hver maður vegi 75 kg.
b. Farmrými, opið eða lokað, aftan við öftustu brún sætis eða milliþils skal vera lengra en fólksrýmið, mælt frá miðri framrúðu.
c. Í farmrými mega hvorki vera sæti né annar búnaður til farþegaflutninga. Sé fólks- eða hópbifreið breytt í sendi- eða vörubifreið skulu með varanlegum hætti fjarlægð úr farmrými sæti ásamt sætisfestingum og öðrum búnaði til fólksflutninga.

Óheimilt er að telja til innskatts virðisaukaskatt vegna öflunar, þ.m.t. leigu, framangreindra ökutækja nema þau séu eingöngu notuð í virðisaukaskattsskyldri starfsemi, þ.e. vegna sölu á vörum og skattskyldri þjónustu. Skilyrði þess að telja megi til innskatts virðisaukaskatt af öflun, þ.m.t. leigu bifreiðar, er að bifreiðin sé búin sérstökum vsk- skráningarmerkjum með rauðum stöfum á hvítum grunni.

Skv. framangreindri 9. gr. reglugerðar um innskatt mega hvorki vera sæti né annar búnaður til farþegaflutninga í farmrými á þeim sendi- og vörubifreiðum sem notaðar eru sem vsk-ökutæki og virðisaukaskattur vegna öflunar á hefur verið færður til innskatts. Ríkisskattstjóra er ekki heimilt að veita undanþágu frá ofangreindu reglugerðarákvæði í þá veru að vikið sé frá skilyrðum um gerð ökutækja án þess að það varði missi innskattsréttar. Vilji félagið þrátt fyrir það halda sig við það að gera slíka breytingu á bílnum þá heyrir það undir Umferðarstofu að taka afstöðu til beiðni um slíka breytingu út frá reglum um skráningu ökutækja. Komi til slíkra breytinga á bifreiðinni, að ekki verða lengur uppfyllt framangreind skilyrði 9. gr. reglugerðar um innskatt, ber félaginu að leiðrétta (bakfæra) þann innskatt sem færður var vegna kaupa bifreiðarinnar. Um leiðréttinguna fer eftir ákvæðum IV. kafla reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt. Hvað beiðni um brottnám þilsins varðar skal tekið fram að það er ekki skilyrði, skv. 9. gr. reglugerðar um innskatt, að það sé þil fyrir aftan ökumannssæti í vsk-ökutækjum. Komi til þess að þilið verði fjarlægt myndar það ekki skyldu til að leiðrétta áður færðan innskatt af kaupverði ökutækisins.

 

Virðingarfyllst

f. h. ríkisskattstjóra

Harpa Kristjánsdóttir

Guðrún Þorleifsdóttir