Dagsetning Tilvísun
19. okt. 1990 155/90
Vsk. – hönnunarvinna við skip.
Með bréfi yðar, dags. 19. janúar 1990, er óskað álits ríkisskattstjóra á því hvort sú starfsemi fyrirtækisins sem fólgin er í hönnun, gerð teikninga og verklýsinga, svo og eftirliti með framkvæmdum vegna nýsmíða og viðgerðar- og viðhaldsvinnu við skip falli undir ákvæði 7. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt.
Að áliti ríkisskattstjóra tekur undanþáguákvæði 7. tölul. l. mgr. 12. gr. til undirbúnings- og eftirlitsvinnu af því tagi sem um ræðir í bréfi yðar, enda sé hún seld útgerðaraðila beint vegna tilgreinds skips eða skipasmíðaverkefnis. Hins vegar ber fyrirtækinu að innheimta virðisaukaskatt þegar það selur öðrum en útgerðaraðila þessa þjónustu, t.d. þegar selt er til skipasmíðastöðvar eða annars aðalverktaka.
Undanþáguákvæði 7. tölul. nær ekki til skemmtibáta.
Við sölu á þjónustu sem undanþegin er skattskyldri veltu samkvæmt framansögðu skal fyrirtækið geta þess á reikningi sínum við hvaða skip var unnið og skal útgerðarmaður eða yfirmaður skips staðfesta með yfirlýsingu og áritun á afrit reiknings að þjónustan varði skip hans.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.