Dagsetning Tilvísun
18. júní 1991 285/91
VSK – Kaup erlends aðila á hlut á nauðungaruppboði.
Með bréfi yðar, dags. 19. apríl 1991, er óskað álits ríkisskattstjóra á því hvort reikna beri virðisaukaskatt við sölu á vélasamstæðu á nauðungaruppboði þegar kaupandi er erlendur aðili sem ekki hefur starfsemi hér á landi. Fram kemur í erindinu að hinn erlendi aðili átti kröfu á hendur þrotabúinu, tryggða með veði í vélasamstæðunni, og að ljóst sé að honum verði lögð út samstæðan upp í veðkröfuna. Þá segir að ekki sé ákveðið hvað gert verður við vélasamstæðuna en líklegt sé að hún verði seld nýjum rekstraraðila hér á landi. Það sjónarmið kemur fram að salan falli undir 4. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga.
Samkvæmt almennum reglum virðisaukaskattslaga ber að innheimta og skila virðisaukaskatti við sölu eða afhendingu rekstrarfjármuna úr þrotabúi. Fari sala fram á uppboði skal uppboðshaldari innheimta og skila skattinum, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna. Ríkisskattstjóri lítur svo á að útlagning til veðhafa sé skattskyld afhending í þessu sambandi.
Ekki skiptir máli um skyldu til að greiða virðisaukaskatt við kaup á vöru innanlands hvort kaupandi er íslenskur eða erlendur aðili.
Samkvæmt því sem fram kemur í erindinu hyggst hinn erlendi aðili (kaupandi) ekki halda áfram starfrækslu vélasamstæðunnar hérlendis. Ákvæði 4. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga geta því ekki átt við um þessa eignayfirfærslu. Sá sem kaupir eign af þessu tagi í því skyni að endurselja hana er skráningarskyldur, sbr. 5. gr. laganna, og getur talið virðisaukaskatt af öflun hennar til innskatts.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.