Dagsetning                       Tilvísun
20. nóvember. 1991                             361/91

 

Vsk – sorpbrennslustöð sveitarfélags.

Með bréfi yðar, dags. 7. nóvember sl., er óskað álits ríkisskattstjóra varðandi virðisaukaskatt af byggingu og starfrækslu sorpbrennslustöðvar. Í bréfinu er því lýst að hugmyndin sé að sorpbrennslustöðin verði sjálfstætt fyrirtæki í eigu sveitarfélagsins og selji því þjónustu sína.

Til svars erindinu skal tekið fram að samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, skulu opinber þjónustufyrirtæki, sem hafa það að meginmarkmiði að selja skattskyldar vörur eða þjónustu til annarra, greiða virðisaukaskatt af starfsemi sinni, þ.m.t. úttekt til eigin nota eiganda og afhending til annarra opinberra aðila. Þau skulu innheimta virðisaukaskatt af heildarveltu sinni og skila honum í ríkissjóð að frádregnum innskatti af aðföngum. Að áliti ríkisskattstjóra tekur ákvæði þetta til sorpbrennslustöðva í eigu sveitarfélaga sem reknar eru sjálfstætt.

Af ofangreindu leiðir, að sorpbrennslustöð innheimtir virðisaukaskatt af sölu þjónustu sinnar en hefur jafnframt rétt til að telja til innskatts virðisaukaskatt af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum sem eingöngu varða sölu hennar á vörum og skattskyldri þjónustu, þ.m.t. tækjum til nota við sorpbrennslu og byggingu húsnæðis undir starfsemina.

Samkvæmt l. tölul. 12. gr. reglugerðarinnar er sveitarfélögum og ríkisstofnunum endurgreiddur sá virðisaukaskattur sem þau greiða við kaup á sorphreinsun, þ.m.t. eyðingu sorps, að frátaldri endurvinnslu.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Jón Guðmundsson.