Dagsetning                       Tilvísun
18. júní 1991                            289/91

 

VSK – útleiga veitinga- og samkomuhúsnæðis.

Eins og kunnugt er tóku nokkrar breytingar á lögum um virðisaukaskatt gildi um síðustu áramót. Meðal annars var 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. breytt þannig að útleiga veitinga- samkomuhúsnæðis varð skattskyld þrátt fyrir almennu regluna um að fasteignaleiga sé utan skattskyldusviðs.

Í greinargerð með ákvæðinu kemur fram að tilgangur þess sé að jafna samkeppnisstöðu veitingahúsa gagnvart þeim sem leigja út sali til samkomuhalds í einstökum tilvikum: Jafnframt segir að ákvæðið komi í veg fyrir að hægt sé að komast hjá greiðslu virðisaukaskatts að hluta af veitinga- og samkomuhaldi við leigu á samkomusal og kaup á mat með því að færa kostnað frá skattskyldu sölunni og yfir á þá skattfrjálsu.

Til skýringar á ákvæðinu skal eftirfarandi tekið fram:

  1. Ríkisskattstjóri túlkar ákvæðið þannig að það taki aðeins til skammtímaleigu (aðstöðusölu) á sal eða öðru húsnæði, þ.e. útleigu vegna tiltekins viðburðar eða samkomu. Ákvæðið tekur hins vegar ekki til eiginlegra húsaleigusamninga um atvinnuhúsnæði, þ.e. samninga sem falla undir húsaleigusamningalög nr. 44/1979, þótt viðkomandi húsnæði sé ætlað til veitinga- eða samkomuhalds.
  1. Með vísan til þess sem fram kemur í greinargerð þykir bera að túlka ákvæðið þannig að það eigi aðeins við salarleigu í tengslum við sölu eða framreiðslu veitinga. Með veitingum er bæði átt við máltíðir, áfenga drykki og hressingu (kaffi, gosdrykki o.þ.h.).

Miða má við að útleiga salar eða annars samkomuhúsnæðis sé skattskyld eftirfarandi tilvikum:

(a)        Þegar húsnæði er leigt út fyrir samkomur þar sem eðli máls samkvæmt er gert ráð fyrir sölu eða framreiðslu veitinga. Skiptir þá ekki máli hvort leigutaki kaupir veitingar af leigusala eða þriðja manni eða leggur þær til sjálfur. Skattskyld er til dæmis útleiga salar fyrir veisluhald, svo sem árshátíðir, brúðkaupsveislur og fermingaveislur.

(b)        Þegar húsnæði er selt á leigu samhliða veitingasölu leigusala, þannig að afnot af húsnæði, t.d. til funda- eða ráðstefnuhalds, og veitingar er selt saman eða í tengslum hvert við annað. Skiptir ekki máli hvort veitingar eru framreiddar innan eða utan hins útleigða húsnæðis. Hins vegar er útleigan ekki skattskyld ef veitingar eru eingöngu seldar einstökum gestum, enda séu þær framreiddar utan hins útleigða húsnæðis.

Sú skammtímaleiga samkomuhúsnæðis sem ekki er í tengslum við sölu eða framreiðslu veitinga er utan skattskyldusviðs. Til dæmis er útleiga salar til leikfélags vegna leikæfinga og leiksýninga undanþegin virðisaukaskatti.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.