Vísað er til bréfs yðar, dags. 17. janúar 1990, þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort virðisaukaskattur fáist endurgreiddur sem innskattur vegna vinnubúða sem fyrirtækið á og rekur á athafnasvæðum sínum fyrir starfsmenn sína og verktaka. Sömuleiðis er spurt um innskatt vegna sérútbúinna bifreiða sem teljast til fólksbifreiða þrátt fyrir að þær séu notaðar til eftirlits og viðgerða á háspennulínum og vatnamælinga og sérútbúnar til þeirra verkefna.
Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:
Um vinnubúðir.
Ríkisskattstjóri skýrir ákvæði 2. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga um virðisaukaskatt um bann við innskattsfrádrætti vegna öflunar eða reksturs íbúðarhúsnæðis þannig að ákvæðið taki til húsnæðis sem ætlað er til samfelldrar íbúðarnotkunar á öllum tímum árs. Dvöl í vinnubúðum telst ekki ígildi fastrar búsetu skv. lögum um lögheimili nr. 21/1990, sbr. 2. mgr. 1. gr. þeirra laga. Það er álit ríkisskattstjóra að vinnubúðir séu ekki íbúðarhúsnæði í skilningi 16. gr. laga um virðisaukaskatt. Fyrirtækinu er því heimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt vegna byggingar og viðhalds vinnubúða að því leyti sem þær eru notaðar vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi þess.
Um bifreiðar.
Samkvæmt 6. tölul. 3. mgr. 16. gr. virðisaukaskattslaga, sbr. 6. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 81/1991, um innskatt, er óheimilt að draga frá innskatt vegna öflunar, reksturs og leigu fólksbifreiða fyrir níu menn eða færri nema aðili hafi með höndum sölu eða leigu þessara bifreiða. Skiptir ekki máli í þessu sambandi þótt bifreiðar þessar séu eingöngu notaðar vegna starfsemi sem skattskyld er samkvæmt virðisaukaskattslögum. Í 9. gr. reglugerðar nr. 81/1991 koma fram skilyrði þess að bifreið teljist vöru- eða sendibifreið. Er þá heimilt að telja virðisaukaskatt vegna kaupa bifreiðar til innskatts ef hún er eingöngu notuð við virðisaukaskattsskylda starfsemi.
Dagsetning
21. mars 1991
Tilvísun
262/91